Kanntu að nota QR?

Ég fór yfir páskablað Fréttablaðsins og gerði tilraunir til að skanna þau QR-merki sem fylgdu tveimur auglýsingum sem voru í blaðinu en þær mistókust báðar út af tæknilegum mistökum við hönnun. Símafyrirtækin hafa staðið sig ágætilega í þessu en þar sem fleiri eru farnir að gera tilraunir með þetta ákveð ég að taka niður lista yfir nokkrar reglur sem hönnuðir ættu að hafa í huga þegar kemur að því að birta QR-merki á prenti.

Athugið að pistillinn miðast við að þú sért að nota Adobe Illustrator CS3 en það er eflaust lítið mál að heimfæra hann yfir á annan hugbúnað því hér verður aðallega farið yfir reglur um meðferð á merkjunum sjálfum.

Notaðu réttu tólin

Skjáskot sem sýnir Kaywa QR Code Generator

Þó þú hafir fundið einfalt forrit á Netinu til að búa til QR-merki er alls ekki víst að það bjóði upp á réttu möguleikana. Sem dæmi er forritið sem er í boði á kaywa.com og flestir virðast nota ekki endilega besta verkfærið þó það sé ágætt fyrir einstaklinga. Það er einfalt en býður t.d. ekki upp á alla á möguleika sem þú gætir þurft á að halda á borð við réttar spássíur og stillanlega villuleiðréttingu.

Ég mæli frekar með tólinu sem RACO Industries býður upp á ef þú ætlar að halda áfram gera alvöru hluti með QR-merki. Forritið býður m.a. upp á stillanlegar spássíur og villuleiðréttingu sem getur komið sér vel.

Notaðu vektor-grafík

Passaðu upp á það að líma ekki QR-merki beint inn í prentefnið án þess að breyta því í vektor. Þú getur til dæmis notað Live Trace fítusinn í Illustrator til að gera þetta eftir að hafa fært táknið inn (Object ⇾ Live Trace ⇾ Tracing Options). Hafðu tracing-stillingarnar eins og á myndinni hér fyrir neðan og þú ættir að vera nokkurn veginn safe.

Tracing Options glugginn í Adobe Illustrator. Path Fitting 0 px, Minimum Area 10 px og Corner Angle 0 px.

Næsta skref er síðan að Expanda myndina (Object ⇾ Expand), af-grúppaðu hana síðan nógu oft til að koma í veg fyrir allar undirgrúppur (Object ⇾ Ungroup) og stilla vektorana síðan á rétt litakerfi ef þörf er á (Edit ⇾ Edit Colors ⇾ Convert to CMYK).

Notaðu rétta liti

Ef markmiðið er að birta merkið í dagblaði eða tímariti og þú ætlar ekki að eyða hálfri blaðsíðu í merkið skaltu vinna með CMYK-liti og nota síðan Process Black (100% K) eða spot-liti í QR-merkið. Ef þú notar Rich Black (100% C, 100% M, 100% Y) eiga litirnir það til að renna til við prentun og valda vandræðum við skönnun, þó það hafi virkað á próförk hjá þér áður en þú sendir verkið í prent.

Color Picker valmyndin í Adobe Illustrator stillt á 100% K

Ef þú fórst eftir leiðbeiningunum í kaflanum á undan breyttirðu merkinu í vektor. Til að ganga úr skugga um að þú sért að nota Process Black í því tilfelli skaltu velja svartan hluta af merkinu og athuga hvort hann sé akki alveg örugglega 100% K á litinn eins og á myndinni fyrir ofan.

Hafðu réttar spássíur

QR-tákn með réttum spássíum á mynd af grindverki

Af tæknilegum ástæðum er nauðsynlegt að vera með spássíur eða þagnarsvæði (e. quiet zone) í kring um merkið, annars gæti skanninn (eða síminn) ekki fundið táknið. Passaðu þig að láta helst ekkert efni eða skraut inn á þetta svæði. Spássíurnar verða að vera a.m.k. jafn breiðar og 4 dílar (e. module) í merkinu. Þetta þýðir að ef hver díll er 1 mm verða að vera a.m.k. 4 mm hvítar spássíur í kring um merkið. Hafðu spássíurnar samt örlítið stærri, það borgar sig.

Passaðu fókusinn

Myndavélasímar eru oftast með fastan fókus þannig að þeir þurfa nægilega stórt merki til að lesa. Þess vegna er mjög mikilvægt að merkið sé nógu stórt til að síminn geti tekið skýra mynd af því. Prófaðu þess vegna að skanna próförkina með nokkrum mismunandi gerðum af símum til að vera alveg viss um að það virki.

Notaðu rétta villuleiðréttingu

Einn af göldrunum við QR-kóða er innbyggð villuleiðrétting. Staðallinn býður upp á leiðréttingu á bilinu ~7-30%. Þetta þýðir að með ~30% leiðréttingu getur vantað allt að 30% af merkinu án þess að það tapi gögnum en með aukinni villuleiðréttingu stækkar merkið. Myndin hér að neðan sýnir fjögur QR-merki sem innihalda sömu vefslóðina en notast við misöfluga villuleiðréttingu; ~7%, ~15%, ~25% og ~30%.

Fjögur misstór QR-tákn sem vísa öll á sömu vefslóðina en með mismunandi villuleiðréttingu

Í venjulegu prenti er hámarks-villuleiðrétting yfirdrifið nóg. ~25% leiðrétting dugar nánast alltaf að því gefnu að það sé lítil hætta á að merkið skemmist. Prentgæðin hafa yfirleitt meira að segja um það hvort það sé hægt að skanna þau.

Gerðu tilraunir

Mundu að prenta út próförk og gerðu tilraunir á QR-merkinu eins og þú getur. Fáðu lánaða síma og reyndu að nota vefmyndavélar til að taka myndir af því. Ef tilraunirnar heppnast vel ætti öðrum að ganga vel að skanna merkið.

Styttu slóðina

Þó einn af göldrunum við QR-merki sé sá að þau geta geymt ósköpin öll af upplýsingum, þá byggist það að stórum hluta á stærð merkinsins, prentgæðum og því hvort myndvélin eða skanninn nái hreinlega að lesa myndina. Ef þú ert að vísa í langa vefslóð er gott að nýta sér styttingarþjónustur á borð við url.is og bit.ly til að stytta hana. Þannig er hægt að bæta aflesturinn og nota smærri merki.

Að lokum

Athugið að þetta eru alls engar kennisetningar eða bönn. Það er ekkert mál að leika sér með QR-merki þegar maður er farinn að þekkja og skilja tæknina. E.t.v. skrifa ég meira um það síðar.

QR-merki geta verið mjög gagnleg, bætt aðgengi að upplýsingum og aukið áhuga fólks á að fylgjast með auglýsingum og taka þátt. En farið samt varlega, því rétt eins og þegar kemur Facebook-fítusum og viðlíka gismóum, þá er ekki sniðugt að láta þau vera eitthvað sem er fyrir eða pirrar notandann.

Frekari lestur og skemmtileg tól

, ,

  1. #1 by Stefán Vignir on 26. apríl 2011 - 02:44

    Hinn mikli snillingur Arnór Bogason benti á alveg hreint frábæra græju til að búa til QR-merki. Það er smíðað af Kerem Erkan og getur skilað út QR-kóða á vektor-sniði. Tékkið endilega á því á http://keremerkan.net/qr-code-and-2d-code-generator/

  1. Bestu tólin á vefnum til að búa til QR-merki « Stefán Vignir

Færðu inn athugasemd

  • Hæ, hvað segirðu?

    Þetta er vísir að vettvangi fyrir pælingar mínar um vefheima hvort sem það tengist hönnun eða forritun. Efnið á að vera gagnlegt, aðgengilegt og vonandi skemmtilegt.
  • Skrifaðu tölvupóstfangið þitt til að fá nýjustu færslurnar sendar í tölvupósti og leið og þær koma.

    Join 2 other subscribers
  • Tékkaðu á Shopify